Innlent

Guðni Th.: Erfitt að draga fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segir að erfitt geti reynst að draga fyrrverandi ráðherra úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fyrir Landsdóm vegna gjörða í aðdraganda bankahrunsins. Ákæruefni geti ekki verið almenn, heldur þurfi að negla niður saknæmar athafnir.

Skýrslu þingmannanefndar sem hefur það hlutverk að móta pólitísk viðbrögð við Rannsóknarskýrslu Alþingis verður að öllum líkindum dreift í þinginu á morgun, og hún gerð opinber. Skýrslan er nokkur hundruð síður en þingmenn nefndarinnar, undir forystu Atla Gíslasonar, hafa fundað stíft vegna málsins á síðustu vikum og mánuðum. Nefndin hefur meðal annars það hlutverk að taka afstöðu til þess, og þá leggja til við þingið, hvort Landsdómur verði kallaður saman til að úrskurða um hugsanlega vanrækslu fyrrverandi ráðherra aðdraganda bankahrunsins.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segir að það gæti reynst erfitt að draga ráðherra fyrir dóm vegna gjörða í aðdraganda bankahrunsins. „Þetta sambland pólitíkur og ákæruefna er vafasamt, enda hefur það lengi verið skoðun margra, þeirra á meðal Jóhönnu forsætisráðherra að Landsdómur sé úrelt fyrirbæri og eigi helst að hverfa úr stjórnarskrá og stjórnkerfi landsins."

Hann segir að sakarefnin geti ekki verið almenn. „Það þarf að vera eitthvað sérstakt sem neglt er niður og varðandi ráðherrana er erfitt að sjá hin sérstöku ákæruefni, en eins og ég segi það verður þá fróðlegt að sjá þegar það gerist, hvaða fundur það var og hvaða ákvörðun það var eða sem var ekki tekin sem þykir saknæm."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×