„Mér finnst brýnast að stjórnlagaþingið marki endalok sjálftökusamfélagsins," segir Þorvaldur Gylfason. Hann telur flesta þá sem kjörnir voru inn á þingið líta svo á að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé nátengd bankahruninu sem varð haustið 2008.
Þorvaldur hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sætið en hann er hagfræðiprófessor og hefur verið atkvæðamikill í umræðunni eftir bankahrunið.
Freyja Haraldsdóttir fékk einnig góða kosningu og níunda mesta fylgi í fyrsta sætið.
„Mér líst vel á og er þakklát því trausti sem mér er sýnt. Ég ætla fyrst og fremst að berjast fyri réttarstöðu fatlaðs fólks og annarra minnihlutahópa," segir Freyja meðal annars um áherslur sínar.
Henni finnst mikilvægt að þjóðin líti í eign barm eftir það sem á undan er gengið.
Karlar eru 60 prósent þingfulltrúa og konur 40 prósent, sem er innan viðmiðunarmarka. Athygli vekur að 22 fulltrúanna koma af höfuðborgarsvæðinu en einungis þrír af landsbyggðinni.
Kjörbréf verða gefin út á fimmtudag og stjórnlagaþing hefst svo 15. febrúar.