Í umfjöllun um málið á Bloomberg fréttaveitunni segir greinandinn Francis Pretre hjá CM-CIC að kampavínsiðnaðurinn sé nú að fljóta í gegnum verstu kreppu sína síðan árið 2000 þegar salan hrundi í kjölfar mikillar kampavínsdrykkju í tengslum við árþúsundaskiptin.
Framleiðendur á eðalkampavíni á borð við Laurent-Perrier selja nú kampavínflöskuna á undir 1.800 kr. í frönskum stórverslunum. Þetta er nálægt því hálfvirði m.v. velmektardaga kampavínsins árið 2007.
„Ef þessi þróun heldur áfram langt fram á næsta ár gæti þetta skapað alvarlegan ímyndarvanda fyrir kampavínsiðnaðinn," segir Pretre.
Carole Duval-Leroy formaður gæðanefndar Champagne-héraðsins í Frakklandi er sammála þessu mati Pretre og segir að það sé mikil skammsýni hjá kampavínsframleiðendum að minnka verð sín svo mikið sem raun er orðin. Það geti komið í bakið á þeim síðar þegar kreppunni slotar og fólk fær meira fé milli handanna.