Erlent

Hræðist yfirlýsingar bandarískra stjórnmálamanna

Julian Assange segist hafa áhyggjur af því að bandarískir stjórnmálamenn hafi hvatt til þess að hann og hans fólk verði myrt.

Julian Assange er nú kominn á sveitasetur stuðningsmanns sem ætlar að veita honum húsaskjól meðan hann bíður niðurstöðu um hvort hann verður framseldur til Svíþjóðar. Hann segist hafa heyrt um leynilega ákæru á hendur sér fyrir njósnir, í Bandaríkjunum. Og hann hefur dálitlar áhyggjur af andlegu jafnvægi Bandaríkjamanna.

„Margir háttsettir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, þar á meðal kjörnir fulltrúar í Öldungadeildinni, hafa krafist þess að ég verði tekinn af lífi, starfsmönnum mínum verði rænt og að hermaðurinn ungi, Bradley Manning, verði tekinn af lífi en þeir fullyrða að hann sé á einhvern hátt flæktur í þessi mál," segir Julian.

Jafnframt segir hann: „Þetta er mjög alvarlegt mál. Það hefur sést undanfarið að stofnanir í Bandaríkjunum eru að bregðast. Þær fara ekki að lögum og reglum. Það er alvarlegt mál að þurfa að fást við stórveldi sem virðist ekki fara að lögum og reglum."

Framsalsmálið gegn Julian Assange verður tekið fyrir í Lundúnum 11. janúar næstkomandi. Þangaðtil verður hann að halda sig á sveitasetrinu, við takmarkað ferðafrelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×