Innlent

Kristján Þór Júlíusson greinir ekki frá styrkveitanda

Kristján Þór Júlíusson var eini þingmaðurinn sem átti eftir að svara Fréttablaðinu hvort hann gæfi upp styrkveitendur sína vegna kosninga árið 2007. Þá fékk hann 500.000 krónur frá lögaðila sem er í gögnum Ríkisendur­skoðunar sagður óska nafnleyndar.
Kristján Þór Júlíusson var eini þingmaðurinn sem átti eftir að svara Fréttablaðinu hvort hann gæfi upp styrkveitendur sína vegna kosninga árið 2007. Þá fékk hann 500.000 krónur frá lögaðila sem er í gögnum Ríkisendur­skoðunar sagður óska nafnleyndar.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ætlar ekki að gefa upp hvaða lögaðili styrkti hann um hálfa milljón í prófkjöri sem hann tók þátt í vegna alþingiskosninganna 2007. Hann segir að framlagið hafi verið veitt samkvæmt þáverandi viðmiðum, meðal annars um nafnleysi.

„Þannig var framlagið fengið og ég geng ekki á bak orða minna í því," segir hann. Þingmaðurinn er hins vegar feginn því að nú gildi aðrar reglur.

„Sem betur fer. Ég er ánægður með að menn vilji stemma stigu við þessum gegndarlausa fjáraustri. Stuðningur við stjórnmálaflokka á að vera opinber, það er bara þannig," segir hann. Kristján Þór fékk alls tæpar 2,7 milljónir í styrki frá ónafngreindum lögaðilum fyrir kosningarnar, þar af einn styrk sem nam 500.000 krónum.

Með því hefur blaðið rætt við alla sitjandi þingmenn sem tóku þátt í kosningunum 2007 en veittu ekki Ríkisendurskoðun upplýsingar um kostnað eða gáfu ekki upp nöfn þeirra sem styrktu þá um hálfa milljón eða meira.

Flestir þingmannanna hafa veitt blaðinu upplýsingarnar en fimm sjálfstæðismenn ekki, þar á meðal Kristján Þór. Sumir þessara hafa þó tilgreint ýmislegt nánar, til dæmis hvernig tengslum þeirra við styrkveitendur er háttað, og hefur það verið birt jafnóðum í blaðinu.- kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×