Innlent

Skætingur einkenndi viðbrögð Íslendinga við gagnrýni á hagkerfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Viðmót Þorgerðar þykja einkennandi fyrir viðbrögð við gagnrýni á íslenska hagkerfið. Mynd/ Stefán.
Viðmót Þorgerðar þykja einkennandi fyrir viðbrögð við gagnrýni á íslenska hagkerfið. Mynd/ Stefán.
Það viðmót sem birtist í orðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins við gagnrýni sérfræðings hjá Merrill Lynch á íslensk stjórnvöld hafi verið lýsandi fyrir viðbrögð íslenskra stjórnvalda og bankanna við gagnrýni árið 2008. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

„Í kvöldfréttum ríkissjónvarps 24. júlí 2008 var rætt við sérfræðing fjármálafyrirtækisins Merrill Lynch. Setti hann fram gagnrýni á stjórnvöld vegna þess að hann taldi þau ekki hafa brugðist við háu skuldatryggingarálagi á íslensku bankana. Að kvöldi næsta dags var í fréttum ríkissjónvarpsins rætt við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, en hún var starfandi forsætisráðherra á þeim tíma í fjarveru Geirs H. Haarde. Sagðist Þorgerður undrandi á ummælum starfsmanns Merrill Lynch og sagðist jafnframt spyrja hvaða annarlegu sjónarmið byggju þarna að baki þar sem ummælin ættu ekki við nein rök að styðjast. Sagðist Þorgerður einnig spyrja sem menntamálaráðherra hvort starfsmaður Merrill Lynch þyrfti ekki á endurmenntun að halda," segir í skýrslu nefndarinnar.

Rannsóknarnefndin segir í skýrslunni að viðbrögð stjórnvalda og forsvarsmanna íslensku bankanna hafi oftar en ekki falið í sér að fullyrt var að efasemdir um íslenska fjármálakerfið byggðu á annarlegum sjónarmiðum og að leiðrétta þyrfti meintan misskilning í stað þess að stjórnvöld litu í eigin barm og tækju stöðu íslenska fjármálakerfisins til gagngerrar skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×