Enski boltinn

Ancelotti: Ef það á að reka mig þá frétti ég það síðastur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Orðrómurinn um að Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, muni taka við Chelsea næsta sumar flýgur enn hátt. Hreinsanir eru í gangi á Stamford Bridge og Frank Arnesen íþróttastjóri mun hætta næsta sumar. Ray Wilkins aðstoðarþjálfari hætti á dögunum.

Txiki Beguiristain, fyrrum íþróttastjóri Barcelona, er sterklega orðaður við stöðuna sem Arnesen skilur eftir sig. Talið er að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, vilji síðan fá Guardiola til að setjast í stjórastólinn.

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segist hafa heyrt þennan orðróm eins og flestir aðrir.

"Að sjálfsögðu hef ég heyrt af þessu. Það þýðir samt lítið að spyrja mig út í málið. Ef það á að reka þjálfara þá fréttir hann það venjulega síðastur," sagði Ancelotti sem er lítið að velta þessum sögusögnum fyrir sér.

"Ég og strákarnir höfum engan áhuga á þessum sögum. Við höldum áfram að einbeita okkur að því sem við erum að gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×