Viðskipti innlent

Hægari endurreisn

Á sama tíma og skuldatryggingarálag á ríkissjóð hefur lækkað mikið eru horfur um bata í efnahagslífinu að versna. Hagstofan spáir þriggja prósenta samdrætti á þessu ári og því að endurreisnin verði hægari en áður var gert ráð fyrir.

Margt bendir til að markaðurinn hafi vaxandi trú á því að ríkissjóður muni ráða við háar skuldbindingar sínar.

Skuldatryggingarálag mælir hvað það kostar fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs, lántakinn, geti ekki staðið í skilum. Í þessu samhengi má nefna að skuldatryggingarálag á bankana rauk upp úr öllu valdi á árinu 2008 - þegar halla fór undan fæti í bankakerfinu.

Eftir að skuldatryggingarálag á ríkissjóð náði hámarki í október 2008 hefur það farið hægt og rólega lækkandi, með nokkrum undantekningartímabilum. Álagið hefur lækkað nær stöðugt það sem af er ári og stendur í dag í 275 punktum. Til samanburðar má nefna að álagið á Grikkland nemur yfir 1000 punktum og álagið á Írland stendur í rúmum 500 punktum.

Á sama tíma og skuldatryggingarálagið hefur lækkað og krónan styrkst hafa horfur um hagvöxt á næsta ári versnað. OECD og hagstofan spá því nú að hagvöxtur verði minni en áður var talið og samdrátturinn í ár meiri. Með öðrum orðum er talið að kreppan verði dýpri og endurreisnin hægari.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar er því spáð að landsframleiðsla dragist saman um 3% í ár og að hún vaxi um tæp 2% árið 2011. Í júní spáði hagstofan rúmlega 3% hagvexti á næsta ári. Í spánni segir að fjárfestingar hafi haldið áfram að dragast saman á þessu ári. Óvissuþættir í spánni eru meðal annars að heimili og fyrirtæki dragi áfram úr útgjöldum vegna skuldavanda og að kjarasamningar fari úr böndunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×