Innlent

Fékk fjórar milljónir í framlög vegna prófkjörs

Ragnheiður Ríkharðsdóttir Framlög til Ragnheiðar eru ekki ýkja há miðað við samflokksmenn hennar í sömu kosningum. Þá söfnuðu sumir allt að 25 milljónum til að komast inn á þing. Fréttablaðið/pjetur
Ragnheiður Ríkharðsdóttir Framlög til Ragnheiðar eru ekki ýkja há miðað við samflokksmenn hennar í sömu kosningum. Þá söfnuðu sumir allt að 25 milljónum til að komast inn á þing. Fréttablaðið/pjetur

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk alls fjórar milljónir og 250 þúsund krónur í framlög vegna prófkjörs fyrir alþingiskosningarnar 2007, þar af hálfa milljón króna frá Baugi Group ehf.

Önnur framlög lögaðila námu 2.750.000 krónum, undir hálfri milljón hvert og eitt. Ein milljón kom frá einstaklingum. Ragnheiður reiddi svo fram tæpar 2,5 milljónir úr eigin vasa.

Ragnheiður hefur sent blaðinu uppgjör um þetta, en Ríkisendurskoðun hafði hafnað beiðni hennar um að birta það. Lögbundin skylda stofnunarinnar til að birta þessar upplýsingar rann út um áramót, en með bráðabirgðaákvæði í lögum var henni gert að birta slík gögn aftur í tímann.

Ragnheiði bar ekki skylda til að birta þessar upplýsingar. Hún gerir það til að koma í veg fyrir að leynd um framlögin verði til að draga úr trausti á setu hennar í nefnd sem á að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þingmaðurinn ítrekar þó í bréfi til blaðsins þá skoðun sína að lögin eigi ekki að vera afturvirk.

Með því að nefna Baug gerist Ragnheiður þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins til að nafngreina styrktaraðila í prófkjörinu 2007. Það hafa þau Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir einnig gert. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×