Sport

Arna Stefanía sló metið hennar Helgu Margrétar um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍR-ingurinn Arna Stefanía Guðmundsdóttir náði frábærum árangri á þrautarmóti í Svíþjóð um helgina þegar hún varð í efsta sæti í sínum aldursflokki og sló meyjarmet í sjöþraut með því að ná í 5029 stig.

Það er engin önnur en Íslandsmethafinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem átti gamla metið sem var frá árinu 2006. Arna Stefanía sem er aðeins nýorðin 15 ára keppti við stelpur árinu eldri en náði samt fyrsta sætinu í aldursflokknum sem er frábær árangur hjá henni.

Arna Stefanía náði einnig að gera betur en Helga Margrét í 800 metra hlaupinu og náði þar með besta tíma ársins í meistaraflokki þegar hún hljóp á 2:14,67 mínútum. Helga Margrét átti besta tímann, 2:14,84 mínútur.

Kristín Birna Ólafsdóttir úr ÍR náði öðru sæti í kvennaflokki með 5363 stig. Þetta er hennar næstbesti árangur í þraut en hún náði 5402 stigum árið 2006.

Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðablik náði 6111 stigum sem er nokkuð frá hans besta en hann átti ekki eins góðan seinni dag. Hann endaði samt í 2 sæti í hans aldursflokki.

Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr USÚ varð þriðja í 19 ára flokknum með 5044 stig. Þetta er hennar næstbesti árangur í þraut. Hún á best 5123 stig síðan fyrr í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×