Innlent

Útibú umboðsmanns skuldara opnað í Reykjanesbæ

Hefðbundin starfsemi umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hefst í fyrramálið.
Hefðbundin starfsemi umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hefst í fyrramálið.
Umboðsmaður skuldara opnaði útibú sitt í Reykjanesbæ í dag. „Þetta er söguleg stund fyrir umboðsmann skuldara þar sem þetta er í fyrsta útibúið sem opnað er," sagði Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara við opnunina. Ásta lagði áherslu á að opnunin væri tilraunaverkefni og mikilvægt væri að meta áhrifin af því að færa þjónustuna nær þeim sem þurfa á henni að halda, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, rifjaði það upp að hugmyndin um að opna útibú hafi kviknað í lok september, en allir hafi lagst á árarnar með verkefninu. 55 uppboðsmál hjá sýslumanninum í Keflavík hafa nú fengið stöðuna „greiðsluaðlögun" sem þýðir að uppboð fer ekki fram á þeim eignum og sagði Þórólfur það mikilvægt að hægt sé að forða uppboðum og koma málefnum skuldara í annan farveg.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt stutta tölu fyrir hönd þingmanna Suðurkjördæmis og sagði opnunina vera myndarlegt og þakklátt framtak. Þau úrræði sem nú hafi verið kynnt eigi að ná til allra sem eiga í skuldavanda og koma fólki úr honum.

Hefðbundin starfsemi umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hefst í fyrramálið, föstudag, klukkan 8:30. Hægt er að panta tíma í síma 512-6600 eða í grænu númeri embættisins 800-6600.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×