Fótbolti

Þjálfari Portúgals ósáttur með að Drogba fékk að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba undirbýr sig undir að koma inn á völlinn á móti Portúgal.
Didier Drogba undirbýr sig undir að koma inn á völlinn á móti Portúgal. Mynd/AP

Carlos Queiroz, þjálfari Portúgals, var ósáttur með að Didier Drogba fengi að spila með Fílabeinsströndinni í markalausu jafntefli á móti Portúgal á HM í Suður-Afríku í dag.

Drogba fékk leyfi frá FIFA rétt fyrir leikinn til að spila með sérstakar umbúðir til að verja höndina sem brotnaði í síðasta undirbúningsleik Fílabeinsstrandarinnar fyrir keppnina en sá leikur var gegn Japan og fór fram 4. júní.

Dómari leiksins skoðaði þessa sérhönnuðu hlíf Drogba fyrir leik og gaf honum leyfi til að spila með hana. Carlos Queiroz segir að dómarinn hafi ekki getað annað vegna mikillar pressu frá FIFA á að leyfi einni stærstu fótboltastjörnu Afríku að vera með.

„Fulltrúar FIFA ákváðu að dómarinn réði þessu. Það er svolítið skrýtið því samkvæmt reglum þá mega leikmenn ekki spila með armbönd eða aðrar slíka fylgihluti. Ég vil að reglurnar séu eins fyrir alla," sagði Carlos Queiroz eftir leikinn.

FIFA gaf það út að dómarinn Jorge Larrionda frá Úrúgvæ og aðstoðarmenn hans hafi verið þess fullvissir að umbúðir Didier Drogba sköpuðu enga hættu fyrir aðra leikmenn á vellinum.

Drogba kom inn fyrir félaga sinn hjá Chelsea, Salomon Kalou, þegar 65 mínútur voru liðnar af leiknum en komst ekki mikið inn í leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×