Handbolti

EM: Þrettán leikmenn úr sama félagsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Ana Radovic leikur með Buducnost.
Ana Radovic leikur með Buducnost. Mynd/AFP
Nú hafa allir leikmannahópar liðanna á EM í Noregi og Danmörku verið tilkynntir. Eins og búast mátti við er lið Svartfellinga fyrst og fremst skipað leikmönnum úr sama liðinu.

Alls koma þrettán leikmenn úr ZRK Buducnost sem leikur í höfuðborg Svartfjallalands, Podgorica. Lið þetta er gríðarlega sterkt og hefur til að mynda unnið alla sína leiki í Meistaradeild Evrópu í haust nokkuð örugglega.

Það er búist við miklu af liði Svartfellinga hér í Danmörku en liðið leikur í B-riðli með Íslandi og eigast liðin við á fimmtudaginn kemur. Ísland mætir Króatíu í dag kl. 19.15. Fyrri leikur dagsins í B-riðlinum er viðureign Rússlands og Svartfjallalands sem hefst tveimur tímum fyrr.

Sterkasti leikmaður Svartfellinga er leikstjórnandinn Bojana Popovic sem er í ár ein þeirra sem er tilnefnd sem leikmaður ársins í kvennaflokki hjá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF.

Landsliðið er þó án tveggja sterkra leikmanna úr liði Buducnost. Línumaðurinn Ana Djokic og Katarina Bulatovic, örvhent skytta, mega ekki spila með landsliðinu fyrr en á mars á næsta ári. Þær spiluðu áður með landsliði Serbíu, síðast í mars árið 2008, og þurfa samkvæmt reglum EHF að bíða í þrjú ár þar til þær geta spilað með nýju landsliði.

Þess má svo geta að hinir þrír úr landsliði Svartfellinga sem ekki leika með Buducnost spila með Biseri í heimalandinu, Podravka í Króatíu og Viborg í Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×