Erlent

Vilja banna nektarskanna

John Tyner
John Tyner
„Ef við megum ekki taka nektarmyndir af fólki, hvers vegna leyfum við þá stjórnvöldum að gera það?“ spurði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Ron Paul, einn helsti talsmaður þeirra repúblikana sem hvað ákafast vilja draga úr umsvifum ríkisins.

Hann vill banna nýjar aðferðir við öryggisgæslu á flugvöllum, sem felast í því að farþegar eru látnir ganga í gegnum nektar­skanna áður en þeim er hleypt um borð í flugvél, eða sætta sig við að öryggisvörður þreifi vandlega á kynfærum þeirra ella.

Miklar umræður hafa verið í Bandaríkjunum síðustu vikur um þessar nýju reglur. Upphafið má rekja til þess að John Tyner, ungur maður sem hugðist fara um borð í flugvél í San Diego, neitaði fyrr í mánuðinum að gangast undir skoðun með nektarskanna og hótaði að láta handtaka öryggisvörð ef hann snerti á kynfærum sínum.

Tyner fékk ekki að fara um borð í flugvélina, en málið hefur nú verið tekið upp á þingi. John Pistole, yfirmaður samgönguöryggismála í Bandaríkjunum, var kallaður fyrir þingnefnd þar sem hann stóð fastur á því að þessar nýju öryggisráðstafanir væru nauðsynlegar.

Hann sagði að ef fólk mætti velja um að ferðast með flugvél sem farþegum hefði verið hleypt inn í án þess að hafa gengist undir slíka skoðun eða vél með farþegum sem allir hefðu gengist undir slíkt myndi yfirgnæfandi meirihluti velja seinni vélina.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×