Erlent

Berlusconi man vel eftir Þingvallakirkju

Óli Tynes skrifar
Silvio Berlusconi á Þingvöllum með Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra.
Silvio Berlusconi á Þingvöllum með Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra.

Silvio Berlusconi kom til Íslands árið 2002 og heimsótti meðal annars Þingvelli þar sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, tók á móti honum. Ítalski gesturinn var auðvitað fræddur um sögu og þýðingu Þingvalla fyrir íslensku þjóðina.

Þeirri sögu hefur hann líklega gleymt en hann man ennþá eftir Þingvallakirkju. Á Wikipediu þar sem tínd eru til ýmis skondin ummæli hans í gegnum árin er minnst á viðtal á ítalskri sjónvarpsstöð í maí árið 2009. Þar sagði ráðherrann frá því að þegar hann var í heimsókn í Finnlandi hafi hann verið dreginn í þriggja tíma bíltúr út í sveit til þess að skoða 200 ára gamla timburkirkju.

Berlusconi hefur aldrei komið í opinbera heimsókn til Finnlands og enga finnska kirkju séð. Kirkjan var því rakin til Íslands þar sem hann vissulega skoðaði sveitakirkju. Nú er Berlusconi forsætisráðherra lands sem hýsir margar elstu, stærstu, fegurstu og frægustu kirkjur heims. Hvað skyldi honum hafa þótt um lágreistu hlýlegu sveitakirkjuna? -Jú, sagði ráðherrann. Ef þessi kirkja væri á Ítalíu væri löngu búið að rífa hana.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×