Handbolti

Karen: Vantaði ýmislegt upp á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Ole Nielsen
Karen Knútsdóttir var valinn besti leikmaður íslenska liðsins af mótshöldurum eftir leikinn gegn Króatíu í kvöld. Ísland tapaði leiknum, 35-25.

„Það sem fór fyrst og fremst úrskeðis var að vörnin var ekki nógu góð. Króatía var með virkilega góða skyttur sem gekk illa að ráða við. Við fórum ekki nógu mikið út í þær," sagði Karen.

„Svo voru gerðar of mikið af mistökum í sókninni og við vorum líka of duglegar við að stytta óþarflega með ótímabærum skotum."

„Við vissum að þær voru með öflugar skyttur og lögðum upp með að fara út og brjóta á þeim. En það klikkaði eitthvað."

Karen stýrði sóknarleik Íslands ágætlega þegar liðið spilaði af yfirvegun og náði að stilla upp í sóknina. Liðinu gekk oft vel að finna línuna og spila hornamennina fría, sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Það voru fullt af fínum sóknum þar sem við náðum að spila breitt og stimpla niður í hornin. En við þurfum að halda úti lengur en við gerðum og fá ekki þar með hraðaupphlaup í bakið. Mistökin voru of mörg í dag og okkur var refsað fyrir þau."

„Það kom svo kafli um miðjan fyrri hálfleikinn þar sem við misstum þær langt fram úr okkur og það var erfitt að koma til baka eftir það. Við börðumst þó allan leikinn og mættum tilbúnar til leiks. En það vantaði bara ýmislegt upp á í dag."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×