Innlent

65 kíló af fíkniefnum tekin - þrefalt meira en í fyrra

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur haldlagt um það bil þrefalt meira magn fíkniefna í ár en í fyrra.

Það sem af er ári hafa rúmlega 65 kíló af fíkniefnum verið haldlögð í umdæminu, samkvæmt bráðabirgðatölum, á móti tæpum 23 kílóum í fyrra. Þar vega þungt 37 kíló af fíkniefninu khat, sem Lithái og Breti voru gripnir með í ágúst síðastliðnum, en einnig hefur meira magn öðrum efnum, svo sem kókaíni, verið haldlagt.

„Ég held að góður árangur í baráttunni við fíkniefnavandann, innflutning efna, sölu og dreifingu skýrist fyrst og fremst af mikilli og góðri samvinnu þeirra sem að þessum málum koma, það er að segja lögreglu og tollgæslu," segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum. „Samstillt vinnubrögð þessara aðila eru að skila mikilvægum árangri," bætir Gunnar við. „Að mínu mati hefur þessi samvinna eflst mjög með hverju ári og þessir aðilar vinna orðið í dag sem ein heild. Enda er það nauðsynlegt ef árangur á að nást."

Þá segir Gunnar fleiri þætti spila inn í, svo sem aukna meðvitund almennings í þessum efnum sem vegi þungt því árvökulir borgarar veiti oft gagnlegar upplýsingar.

Auk kílóanna 65 hefur lögregla tekið um 500 kannabisplöntur það sem af er ári. Mun fleiri Íslendingar en útlendingar voru teknir í smyglmálum fíkniefna eins og á síðasta ári. Þá hafa átta smyglarar verið teknir með fíkniefni innvortis í ár á móti ellefu í fyrra.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×