Fótbolti

Drogba hefði gefið kost á sér í franska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Didier Drogba í landsleik með Fílabeinsströndinni.
Didier Drogba í landsleik með Fílabeinsströndinni. Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba segir að hefði hann verið valinn í franska landsliðið fyrir tíu árum síðan hefði hann svarað kallinu fremur en að spila með landsliði Fílabeinsstrandarinnar.

Drogba ólst upp að hluta í Frakklandi og hóf sinn knattspyrnuferil með Le Mans þar í landi. Fyrir nærri áratug síðan vakti hann athygli Jacques Santini, þáverandi landsliðsþjálfara, fyrir góða frammistöðu með liðinu.

Drogba segir að hann hefði svarað kallinu hefði Santini valið hann vegna óstöðugleika í heimalandinu. Það var skiljanleg afstaða, sérstaklega í ljósi þess að knattspyrnulið Fílabeinsstrandarinnar var fangelsað í skamman tíma eftir slæma frammistöðu á Afríkukeppni landsliða árið 2000.

En svo fór að hann valdi að spila fyrir Fílabeinsströndina og sér ekki eftir því í dag.

„Ég sé ekki eftir neinu. Ég er viss um að ef ég hefði verið valinn ungur í franska landsliðið hefði ég valið að spila fyrir Frakkland," sagði Drogba við enska fjölmiðla.

„En það hefur fært mig nær mínum uppruna að spila með Fílabeinsströndinni. Ég er betur tengdur mínum rótum og fólkinu í landinu."

„Eins og hjá öllum sem alast upp við tvo menningarheima var ég fyrst og fremst að hugsa um sjálfan mig. Það hefur því hjálpað mér að komast að því hver ég er í raun og veru að spila fyrir hönd minnar þjóðar."

Fílabeinsströndin mætir Portúgal í fyrsta leik á HM á þriðjudaginn næstkomandi en liðin eru í hinum svokallaða dauðariðlinum á HM ásamt Brasilíu og Norður-Kóreu.

Drogba segir þó sína menn stefna á sæti í 16-liða úrslitum. „Þetta verður erfitt en við stefnum á því að komast upp úr riðlakeppnina. Það væri mikið afrek fyrir lítið land eins og okkar að ná þeim árangri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×