Lífið

Vinkonur gera það gott í Danmörku

linda@frettabladid.is skrifar
Eva Dögg málar og stíliserar og Ingibjörg tekur myndirnar og vinnur þær.
Eva Dögg málar og stíliserar og Ingibjörg tekur myndirnar og vinnur þær. Myndir/Ingibjörg Torfadóttir

Vinkonurnar Ingibjörg og Eva Dögg skipa stílista- og myndatökuteymið Purple Masturbation. Þær halda úti netdagbók með verkefnum sínum sem þær ákveða og stílisera í sameiningu. Stelpurnar hafa komið sér á framfæri með því að skrifa á klósettveggi út um allan heim.

„Þetta byrjaði þegar við vorum að sauma saman peysur og selja á myspace. Í viðtali áttuðum við okkur á því að okkur vantaði nafn á teymið. Í einhverju gríni ákváðum við Purple Masturbation og héldum okkur síðan við það," segir Ingibjörg Torfadóttir.

Ingibjörg og vinkona hennar, Eva Dögg Rúnarsdóttir, skipa stílista- og myndatökuteymið Purple Masturbation. Þær eru búsettar í Danmörku og halda úti skemmtilegri netdagbók með myndum úr myndatökum á síðunni purplemasturbation.blogspot.com.

Skrifa á veggi Stelpurnar skrifa á klósettveggi út um allan heim til að koma sér á framfæri.

„Við ákveðum yfirleitt í sameiningu í hvaða anda verkefnin eiga að vera. Fáum innblástur af netinu og útfærum þetta svo eftir okkar hugmyndum," segir Ingibjörg. „Eva sér svo um hár og make-up ásamt því að stílisera en ég sé um myndatöku og vinnslu mynda." Samkvæmt stelpunum vinna þær mjög vel saman í teymi og hafa þær unnið saman í nokkur ár.

Ingibjörg tekur sveinspróf í ljósmyndun nú í sumar en hún hefur bæði lært ljósmyndun hér heima og úti í Danmörku. Einnig lærði hún fatahönnun í eitt ár í Mílanó. Hún hefur unnið mörg verkefni bæði í Danmörku og hér heima. Eva Dögg er lærður fatahönnuður. Hún starfaði áður við merkið Red Issue en starfar nú við hönnun á merkinu Envy fyrir fataverslunina Samsøe & Samsøe. Báðar hafa þær svo starfað sjálfstætt að hönnun fyrir sig sjálfa og ýmis merki í Danmörku.

Stelpurnar auglýsa síðuna á mjög áhugaverðan hátt. Þær ganga um með tússpenna á sér og skrifa á klósettveggi skemmtistaða og almenningsklósetta sem þær heimsækja. Áhugaverðar setningar með slóð á vefsíðuna má því sjá á ótrúlegustu stöðum.

„Fólk fer á klósettið og les það sem er fyrir framan það. Ef það sem við skrifum er áhugavert eru miklar líkur á því að það kíki á síðuna og sjái það sem við erum að gera," segir Eva Dögg. Þessi auglýsingaherferð vinkvennanna hefur svo sannarlega borgað sig þar sem þær eru nú um þessar mundir í New York að vinna að leyndardómsfullu verkefni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.