Íslenski boltinn

Umfjöllun: Blikum refsað - Fyrstu stig Grindvíkinga í hús

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason byrjar vel með Grindavík. Hann stýrði sínum fyrsta leik af hliðarlínunni í kvöld í 2-3 sigri á Blikum. Þetta var fyrsti sigur Grindavíkur í sumar og fyrstu stigin sem liðið fær.

Grindvíkingar voru án Jóhanns Helgasonar, Grétars Ólafs Hjartarsonar og Scott Ramsey. Orri Freyr var í vörninni og Marko á miðjunni.

Grindvíkingar voru baráttuglaðir til að byrja með en það dró af þeim þegar leið á hálfleikinn. Jafnræði var með liðunum framan af en Grindvíkingar komust yfir eftir 18. mínútur.

Ingvar Kale gerði þá glórulaus mistök. Hann fékk boltann, virtist ætla að leggja boltann fyrir sig, hann reyndi að hreinsa en boltinn fór í Ondo sem var einn gegn varnarmanni og markinu, Ingvar virtist fara í hann og skot Ondo var lélegt. Víti var hinsvegar dæmt og Ingvar fékk gult spjald, en ekki rautt sem hefði ef til vill verið eðlilegt þar sem hann var einn gegn markinu.

Ondo skoraði örugglega úr vítinu.

En aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu Blikar sem voru byrjaðir að spila betur. Arnór Sveinn var einn utan á kanti, hann þrumaði inn í teig og boltinn hafnaði í samskeytunum fjær þaðan sem hann fór í stöngina hinu megin og inn. Ótrúlegt mark hjá Arnóri.

Blikar voru ekki hættir, þeir ógnuðu sífellt og fengu horn og aukaspyrnur á álitlegum stöðum. Eftir eitt hornið barst boltinn til Alfreðs Finnbogasonar sem skaut undir Rúnar í markinu og kom Blikum yfir.

Rúnar sá þó við Alfreð skömmu síðar þegar hann slapp einn í gegn. Staðan 2-1 í hálfleik, sanngjörn staða.

Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn vel, líkt og þann fyrri. Jósef skaut boltanum í slánna, stöngina og út, í sömu sókn varði Ingvar vel skot frá Mark og eftir hornið skapaðist enn hætta.

En Blikar sóttu aftur í sig veðrið og réðu öllu á vellinum. Sóknir þeirra voru margar hættulegar, Kristinn skaut framhjá úr dauðafæri, Guðmundur átti skalla beint á Rúnar og Andri gat gert betur nánast einn í gegn.

Blikar hefðu betur nýtt færin sín. Grindvíkingar náðu að jafna eftir samvinnu varamannanna Loic Ondo og Páls Guðmundssonar. Sá síðarnefndi setti boltann í markið eftir að Loic sendi inn í, bróðir hans Gilles missti af boltanum en Páll skoraði fínt mark.

Eftir þetta var leikurinn fremur jafn, Blikar þó ávallt meira með boltann en Grindvíkingar virtust ætla að sækja hratt og verjast vel.

Blikar fengu nokkur færi en var refsað fyrir að nýta þau ekki. Gilles tryggði Grindvíkingum fyrsta sigurinn í sumar þegar hann komst einn gegn Ingvari eftir varnarmistök Elfars og skoraði fimm mínútum fyrir leikslok.

Frábær sigur gestanna í fyrsta leik Ólafs Arnar með liðið. Blikum var refsað fyrir að nýta ekki færin sín og því fór sem fór.

Breiðablik – Grindavík 2-3

0-1 Gilles Mbang Ondo (18.)

1-1 Arnór Sveinn Aðalsteinsson (23.)

2-1 Alfreð Finnbogason (32.)

2-2 Páll Guðmundsson (75.)

2-3 Gilles Ondo (85.)

Áhorfendur: 761.

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr. (6).

Tölfræði leiksins:

Skot (á mark):
11-12 (7-6).

Varin skot: Ingvar 2 – Rúnar 5.

Horn: 7-3.

Aukaspyrnur fengnar: 16-11.

Rangstöður: 2-2.

Breiðablik 4-3-3:

Ingvar Þór Kale 4

Arnór Sveinn Aðalsteinsson 7

Elfar Freyr Helgason 4

Kári Ársælsson 5

(90. Olgeir Sigurgeirsson -)

Kristinn Jónsson 5

Guðmundur Kristjánsson 6

Jökull Elísabetarson 5

Kristinn Steindórsson 4

Alfreð Finnbogason 6

Andri Rafn Yeoman 4

(87. Finnur Orri Margeirsson -)

Guðmundur Pétursson 4

(76. Haukur Baldvinsson -)

Grindavík 4-5-1

Rúnar Dór Daníelsson 6

Ray Anthony Jónsson 5

Auðun Helgason 6

Orri Freyr Hjaltalín 5

Jósef Kristinn Jósefsson 6

(68. Páll Guðmundsson 6)

Jóhann Helgi Aðalgeirsson 4

(74. Luc Mbang Ondo -)

Marko Valdimar Stefánsson 5

Matthías Örn Friðriksson 5

Alexander Magnússon 5

Óli Baldur Bjarnason 4

Gilles Mbang Ondo 7* ML




Fleiri fréttir

Sjá meira


×