Íslenski boltinn

Guðmundur Steinn: Var orðinn hungraður í að spila fyrir Val

Elvar Geir Magnússon skrifar
Valsmenn gátu fagnað sínum fjórða deildarsigri í röð í kvöld.
Valsmenn gátu fagnað sínum fjórða deildarsigri í röð í kvöld.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson átti ansi góðan afmælisdag en hann hélt upp á 21. árs afmæli sitt með því að skora sigurmark Vals gegn Selfossi.

„Þetta var ótrúlega gaman. Ég var búinn að vera hjá HK í mánuð en var orðinn hungraður í að spila fyrir Val. Ég hef mætt á leikina hjá Val og vildi vera með," sagði Guðmundur Steinn sem hóf tímabilið á láni hjá HK í 1. deildinni.

Hann kom til baka í Valsliðið með stæl en þetta var hans fyrsti leikur eftir lánsdvölina. Hann kom inn sem varamaður á 74. mínútu og skoraði svo fjórum mínútum síðar.

Hann segir lánsdvölina hafa hjálpað sér. „Það hjálpaði örugglega alveg helling. Það var alveg virkilega gaman að spila í hverri viku og maður býr að því núna," sagði Guðmundur sem beið spenntur á bekknum eftir tækifærinu. „Það var erfitt að eiga við þetta þar sem það var vindur og svona. En við vorum alveg að ná að skapa færi."

Valsliðið hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð. „Það er virkilega fín holning á þessu og menn eru tilbúnir að standa með hvor öðrum. Andinn er góður og allir tilbúnir að leggja ýmislegt á sig," sagði Guðmundur Steinn eftir leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×