Sport

Kristinn þegar búinn að setja þrjú drengjamet á ÍM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Þórarinsson
Kristinn Þórarinsson Mynd/Heimasíða Keflavíkur

Fjölnismaðurinn Kristinn Þórarinsson er þegar búinn að setja þrjú drengjamet á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í Laugardalslauginni í gær. Kristinn er búinn að setja met í 100 metra fjórsundi, 50 metra baksundi og 200 metra flugsundi en í því síðastnefnda sló hann þrettán ára gamalt met Hjartar Más Reynissonar.

Kristinn sem er aðeins fjórtán ára gamall byrjaði á því að bæta eigið drengjamet í 100 metra fjórsundi í gær þegar hann synti á 1:01,73 mínútu.. Hann náði þar fjórði besti tímanum í undanrásum karla.

Kristinn setti síðan tvö met í undanrásum í morgun. Fyrst bætti hann met Hjartar Más Reynissonar í 200 metra flugsundi þegar hann synti á 2:16,73 mínútum og sló gamla metið um tæpar þrjár sekúndur. Gamla drengjamet Hjartar Más var frá ÍM25 árið 1997 þegar hann synti á 2:19,53 mínútum.

Kristinn var ekki hættur því hann sló líka sitt eigið met í 50 metra baksundi þegar hann synti á 28,32 sekúndum og varð þriðji inn í úrslit. Metið hans var 28,68 sekúndur sem hann setti fyrir rúmum mánuði. Kristinn á nú drengjamet í þrettán greinum.

Kristinn mun keppa í úrslitum í öllum þessum þremur greinum á eftir en úrslitin hefjast klukkan 16.30 og standa yfir til 18.00.

Í 50m baksundi kvenna sló hin17 ára gamla Bryndís Rún Hansen úr Óðni stúlknametið þegar hún synti á 29,41 og var hún fyrst inn í úrslitin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×