Handbolti

Atli: Ég vil að menn hafi gaman af því sem þeir eru að gera

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli með verðlaunin sín í dag. Mynd/Vilhelm
Atli með verðlaunin sín í dag. Mynd/Vilhelm

Atli Hilmarsson, þjálfari toppliðs Akureyrar í N1-deild karla, var í dag valinn besti þjálfarinn í fyrstu sjö umferðum deildarinnar. Akureyri vann alla þá leiki og er reyndar búið að vinna áttunda leikinn líka.

"Ég get alveg viðurkennt að þetta kemur ekkert rosalega á óvart en það breytir því ekki að það er alltaf gaman að fá viðurkenningu. Þetta eru líka verðlaun fyrir liðið og alla sem að því standa," sagði Atli stoltur á Hótel Loftleiðum í dag er hann tók á móti verðlaunum sínum.

Það er óhætt að segja að allt annað sé að sjá til Akureyrarliðsins í ár en í fyrra. Atli tók við liðinu síðasta sumar en hverju breytti hann nákvæmlega?

"Ég held að það sé aðeins meiri léttleiki yfir þessu hjá okkur núna. Mitt mottó er að menn hafi gaman af því sem þeir eru að gera. Ég held að það hafi gengið ágætlega. Það er gaman á hverri æfingu og það er ánægjulegt að fylgjast með strákunum sem njóta sín hvort sem það er á æfingu eða í leik."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×