Viðskipti erlent

Norðurlönd og Bahamaeyjar undirrita upplýsingasamning

Í dag var undirritaður upplýsingaskiptasamningur milli Norðurlanda og Bahamaeyja til að sporna gegn skattaundanskotum. Hann er liður í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem á að stuðla að því að koma í veg fyrir skattaundanskot á heimsvísu.

Þetta kemur fram á vefsíðunni norden.org. Þar segir að verkefninu hefur verið vel tekið hjá OECD (Organisation for Economic Co-operation and Development) og styrkt stöðu Norðurlanda á alþjóðavettvangi.

Frá því samningaviðræður hófust vorið 2007 hafa norrænu ríkin gert upplýsingaskiptasamninga við Arúba, Andorra, Bahamaeyjar, Bermúdaeyjar, Guernsey, Mön, Jersey, Antillaeyjar, Cayman-eyjar, Bresku Jómfrúreyjarnar, Anguilla, Turcs- og Caicoseyjar, Gíbraltar, Cookeyjar, Samóeyjar og San Marínó. Danir hafa auk þess samið við yfirvöld á St. Lucia, St. Vincent og Grenadin, St. Kitts og Nevis auk Antigua og á Barbuda.

Samningurinn veitir norrænum skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um skattskyldar innstæður og tekjur og mögulegan aðgang að tekjum og fjármagni sem ekki hefur verið gefið upp til skatts í heimalandinu.

Af stjórnarskrárástæðum eru samningarnir tvíhliða. Allir upplýsingaskiptasamningar af þessu tagi sem norrænu ríkin gera, fara síðan til umfjöllunar í þingum landanna.

Samningurinn var undirritaður við athöfn í sendiráði Danmerkur í París.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×