Fótbolti

Ítalir eina þjóðin á HM 2010 sem hafa ekki unnið leik á þessu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ítalir bíða enn eftir fyrsta sigrinum á árinu 2010.
Ítalir bíða enn eftir fyrsta sigrinum á árinu 2010. Mynd/AP
Fyrir leiki dagsins á HM í Suður-Afríku voru Grikkland og Ítalía einu liðin, af þeim 32 sem taka þátt á heimsmeistarakeppninni í ár, sem hafði ekki tekist að vinna landsleik á þessu ári.

Grikkir unnu 2-1 sigur á Nígeríu í sínum leik á HM í dag sem þýðir það að eina liðið á HM sem hefur ekki unnið landsleik á þessu ári eru Heimsmeistararnir frá Ítalíu.

Ítalir hafa leikið fjóra leiki á árinu 2010. Þeir gerðu markalaust jafntefli við Kamerún í mars, töpuðu 1-2 á móti Mexíkó í júní og gerðu síðan 1-1 jafntefli við Svisslendinga í síðasta undirbúningsleiknum sínum fyrir HM.

Ítalir gerðu síðan 1-1 jafntefli við Paragvæ í fyrsta leik sínum á HM en næsti leikur liðsins er á móti Nýja-Sjálandi á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×