Innlent

Fjalli um geldingar á svínum

Jón Bjarnason beinir kastljósinu að aðbúnaði og meðferð svína
Jón Bjarnason beinir kastljósinu að aðbúnaði og meðferð svína Mynd/Anton Brink

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Hópnum er meðal annars ætlað að fjalla um aðbúnað og meðferð svína.

Fréttastofa fjallaði ítarlega í vikunni um geldingar á svínum. Hér á landi eru karlkyns grísir geltir án deyfingar eða verkjastillingar. Starfsmaður svínabúsins sker þá í punginn og slítur eistun út. Aðgerðin er gríðarlega sársaukafull fyrir grísina. Kjöt geltra grísa er án sérstaks bragð og lyktar sem getur komið af ógeltum grísum og er það megin ástæðan fyrir geldingunni.

Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir og formaður dýraverndarráðs, gagnrýndi þessa aðferð í samtali við Vísi á þriðjudaginn. „Fyrir dýrið er að mínu mati óásættanlegt að það sé verið að gelda án deyfingar."

Fram kemur á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að vandi svínaræktar á Íslandi hafi verið í umræðu að undanförnu og að greinin hafi á einum áratug gengið í gegnum tvö tímabil offramleiðslu, gjaldþrota og verðfalls afurða. Samhliða hafi þróunin verið í átt að aukinni samþjöppun í eignarhaldi. Mikil afskipti bankastofnana hafi síðan veikt samkeppnisgrundvöll smærri rekstrareininga.

Starfshópnum sem Jón hefur skipað er ætlað fjalla um málefni greinarinnar á breiðum grundvelli. „Þar koma til álita þau umfjöllunarefni aðbúnaðar og meðferðar svína sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum að undanförnu. Stefnt er að því að ný aðbúnaðarreglugerð líti dagsins ljós fyrir lok árs."








Tengdar fréttir

Bændur gelda ódeyfð lömb með töngum

Dæmi eru um að íslenskir bændur noti svokallaðar geldingatangir til að gelda lambhrúta og kálfa án deyfingar. Leyfilegt er að selja tangirnar til almennings. Dýralæknar einir hafa heimild til að gefa dýrum deyfilyf og hafa sömuleiðis einir aðgang að þeim lyfjum. Í drögum að nýjum dýraverndarlögum verður lagt til að aðeins verði heimilt að selja tangirnar dýralæknum. Þetta er viðleitni til að tryggja að dýrin séu alltaf deyfð fyrir aðgerð.

Vill ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá Íslands

Dýravernd er fyrir borð borin og setja þarf ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja velferð dýra á Íslandi. Þetta er mat Árna Stefáns Árnasonar sem er að ljúka við meistararitgerð sína um íslensku dýraverndarlögin, við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Grísir geltir á sársaukafullan hátt án deyfingar

Á Íslandi eru karlkyns grísir geltir án deyfingar eða verkjastillingar. Starfsmaður svínabúsins sker þá í punginn og slítur eistun út. Aðgerðin er gríðarlega sársaukafull fyrir grísina. Kjöt geltra grísa er án sérstaks bragð og lyktar sem getur komið af ógeltum grísum og er það megin ástæðan fyrir geldingunni.

Halinn klipptur af stressuðum grísum

Þegar þröngt er um grísi og þeir hafa lítið fyrir stafni eiga þeir til að fara að naga halann hver á öðrum sér til dægrastyttingar. Þetta getur leitt til sýkinga og aukins kostnaðar fyrir svínabú. Vegna þessa tíðkast víða að starfsfólk svínabúa klippir halann af grísunum og styttir tennur þeirra.

Svínabú vilja aðgang að deyfilyfjum

„Hér er þetta bara eins og hjá öllum öðrum svínabúum á Íslandi. Það er bara þessi hefðbundni háttur á að gelda grísi sem hefur verið viðhafður hér í tugi ára. Við höfum ekki aðgang að neinum deyfilyfjum,“ segir Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss sem er stærsta svínabú á landinu.

Ill meðferð dýra til að mæta kröfum neytenda

Kröfur neytenda og aukin eftirspurn er ástæðan fyrir því að dýrum sem slátrað er til matvælaframleiðslu er haldið innilokuðum við þröngan kost, jafnvel án þess að nokkurn tíman komast undir bert loft. Þetta er mat Árna Stefáns Árnasonar sem er að ljúka við meistararitgerð sína um íslensku dýraverndarlögin, við lagadeild Háskólans í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×