Fótbolti

Danir töpuðu fyrir Áströlum og þjálfarinn var ósáttur með leikboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jon Dahl Tomasson í leiknum.
Jon Dahl Tomasson í leiknum. Mynd/AFP
Danir töpuðu 0-1 fyrir Ástralíu í dag í næstsíðasta undirbúningsleiknum sínum fyrir HM í Suður-Afríku. Bæði lið eru á leiðinni á HM og leikurinn fór fram í Suður-Afríku. Joshua Kennedy, framherji Ástrala, skoraði eina mark leiksins á 71. mínútu.

Joshua Kennedy hafði betur í baráttunni við Daniel Agger þegar hann skoraði sigurmarkið en miðjumaðurinn Christian Poulsen fékk besta færi Dana í leiknum. Danir mæta heimamönnum í síðasta undirbúningsleiknum sínum á laugardaginn.

Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins, kvartaði mjög mikið yfir boltanum í leikslok. „Við spiluðum með alveg ómögulegum bolta og við þurfum að reyna að venjast honum sem fyrst," sagði Olsen eftir leikinn.

Jon Dahl Tomasson lék í dag sinn 109. landsleik fyrir Dani og komst þar með upp fyrir Thomas Helveg sem lék 108 leiki á árunum 1994 til 2007 og var sá útileikmaður sem hafði áður spilað flesta leiki fyrir Dani. Markmaðurinn Peter Schmeichel á sjálft landsleikjametið en hann spilaði alls 129 landsleiki á ferlinum.

Jon Dahl Tomasson er 33 ára gamall og hefur skorað 51 mark í þessum 109 landsleikjum. Þetta var aðeins 24 tapleikurinn hans en hann hefur verið í sigurliði í 55 leikjum. Tomasson jafnar markametið með næsta marki en Poul "Tist" Nielsen setti metið með því að skora 52 mörk í 38 leikjum frá 1910 til 1925.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×