Innlent

Um fimmtíu útlendingum vísað frá landi árlega

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra.
Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra. Mynd/Arnþór Birkisson
Á árunum 2000-2009 var 534 útlendingum vísað frá landi við komu til Keflavíkurflugvallar. Af þeim sóttu yfir 200 um hæli á Íslandi. Flestum var vísað frá 2001 eða 103. Á umræddu tímabili var því að jafnaði um 50 útlendingum vísað frá landi á ári eða einum í hverri viku. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Ögmundar Jónasonar, dómsmála- og mannréttindaráðherra, við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, um frávísanir útlendinga.

Birgitta vildi meðal annars vita hvort það tíðkast að vísa útlendingum úr landi án þess að þeir fái tækifæri til að leggja inn hælisumsókn og án þess að mál þeirra sé tekið til efnislegrar skoðunar.

í svarinu kemur fram að útlendingar hafa ávallt möguleika á því að sækja um hæli við komu til landsins. Óski útlendingur eftir hæli hér á landi fær Útlendingastofnun málið til meðferðar.

Þá segir í svari Ögmundar: „Meðferð hælisumsókna hér á landi hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum sem skýrist fyrst og fremst af breytingum á lögum og reglum sem um þennan málaflokk gilda. Framkvæmdin er með þeim hætti að hlutverk lögreglu er að undirbúa mál fyrir Útlendingastofnun á upphafsstigum málsins en Útlendingastofnun fer með frekari meðferð málsins og tekur ákvörðun um í hvaða farvegi málið verði afgreitt (svo sem Dyflinnarmeðferð, flýtimeðferð, efnismeðferð). Lögregla tekur ekki slíkar ákvarðanir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×