Fótbolti

Danir eiga yngsta leikmanninn á HM í Suður-Afríku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen í leik á móti Ástralíu.
Christian Eriksen í leik á móti Ástralíu. Mynd/GettyImages
Daninn Christian Eriksen verður yngsti leikmaðurinn á HM í sumar en þetta varð ljóst eftir að allir landsliðsþjálfararnir 32 höfðu allir tilkynnt lokahóp sinn á HM í Suður-Afríku sem hefst eftir rúma viku.

Christian Eriksen verður 18 ára og 117 daga þegar HM hefst og er 23 dögum yngri en Vincent Aboubakar hjá Kamerún og 69 dögum yngri en Chris Wood hjá Nýja-Sjálandi.

Christian Eriksen er miðjumaður og spilar með hollenska liðinu Ajax. Hann kom þangað frá OB árið 2008. Eriksen lék sinn fyrsta landsleik á þessu ári og spilaði aðeins 11 leiki með Ajax á síðasta tímabili.

Elsti leikmaður keppninnar er enski markvörðurinn David James sem verður fertugur þremur vikum eftir úrslitaleik keppninnar.

Brasilía er með elsta meðalaldurinn (29 ár og 60 dagar) en yngsta lið keppninnar er landslið Gana þar sem að meðalaldurinn er aðeins 24 ár og 300 dagar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×