Skoðun

Ný vinnubrögð

Jón Gunnarsson skrifar
Það hitti mig illa að heyra um skipverjann á Sturlaugi H. Böðvarssyni sem veiktist alvarlega þegar skipið var statt um 70 sjómílur vestur af Reykjanesi. Í fréttum kom fram að ekki hefði verið tiltæk þyrluáhöfn til að manna fylgdarþyrlu fyrir þá sem senda hefði mátt eftir skipverjanum. Vinnureglur Landhelgisgæslunnar segja fyrir um að ekki sé farið lengra út til hafs á einni þyrlu en 20 sjómílur til að tryggja öryggi þyrluáhafna. Þessi regla er sett til þess að hægt sé að bregðast við til bjargar áhafnarmeðlimum komi eitthvað upp á.

Við þær aðstæður sem uppi voru í þessu máli eða sambærilegum hefði verið hægt að fara nokkrar leiðir til að koma skipverjanum til hjálpar. Þannig hefði mátt senda út björgunarskip með lækni sem hefði verið komið að togaranum innan 3 klukkustunda, senda út björgunarskip til að fylgja þyrlunni eftir auk þess að setja skip og báta á siglingaleiðinni í viðbragðsstöðu til að koma þyrluáhöfninni til bjargar ef á hefði þurft að halda. Sjóveður og sjólag var eins og best verður á kosið.

Þegar kreppir að verðum við að gera það besta sem hægt er við breyttar aðstæður. Þegar menn veikjast, hvort sem er á landi eða sjó, eigum við að bregðast við með öllum tiltækum ráðum. Ég get ekki metið nauðsyn læknishjálpar í þessu tiltekna tilfelli, en fram hefur komið í fréttum að brugðið hefði getað til beggja vona. Ég vil koma því skilmerkilega á framfæri að okkur eru ekki allar bjargir bannaðar þótt að kreppi um stundarsakir og okkur ber skylda til að hugsa upp ný vinnubrögð við breyttar aðstæður. Ef manneskja hefði veikst alvarlega uppi á jökli og þyrla ekki getað sótt hana t.d. vegna slæms skyggnis, þá hefðu björgunarsveitir með lækna verið sendar á staðinn. Sjómenn eiga kröfu á því að fá sömu viðbrögð og aðrir þegar á bjátar og þeim aðferðum sem að framan var lýst hefði hæglega mátt beita í þessu tilfelli ef læknir hefði metið ástandið jafnalvarlegt og áhöfn skipsins.

Höfundur er alþingismaður og og formaður stjórnar björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×