Handbolti

Danir unnu síðasta æfingaleikinn fyrir EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kasper Hvidt, markvörður Dana.
Kasper Hvidt, markvörður Dana. Mynd/AFP
Danska landsliðið vann í gær sigur á Tékklandi, 29-24, í síðasta æfingaleik liðsins fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst í Austurríki eftir eina viku.

Fjögurra liða æfingamót fór fram í Danmörku um helgina en auk heimamanna og Tékka tóku Norðmenn og Slóvenar þátt í mótinu.

Danir byrjuðu á því að sigra Slóvena í spennandi leik á föstudaginn, 36-35, en hetja heimamanna var markvörðurinn Niklas Landin sem varði vítakast frá Luka Zvizej þeagr fimmtán sekúndur voru til leiksloka.

Þá tók við leikur gegn Norðmönnum sem Danir áttu ekki í miklum vandræðum með. Þeir léku sterka 6-0 vörn og Kasper Hvidt var öflugur í markinu.

Sigurinn á Tékkum var þó enginn glansleikur en mestu munaði um markvörslu hins unga Landin í síðari hálfleik.

Danir eru ríkjandi Evrópumeistarar og eru með Íslandi í riðli á EM í Austurríki. Liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar þann 23. janúar. Þar að auki er Ísland í riðli með Austurríki og Serbíu.

Ulrik Wilbek landsliðsþjálfari mun nú velja lokahópinn sem fer til Austurríkis.

Úrslit annarra leikja á mótinu:

Tékkland - Noregur 33-28

Noregur - Slóvenía 37-30

Slóvenía - Tékkland 37-30






Fleiri fréttir

Sjá meira


×