Handbolti

Freyr: Einhverjir Haukamenn sem vilja ekki koma í Kaplakrika

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Nú komum við tilbúnir," sagði Freyr Brynjarsson, hornamaður Hauka, eftir að liðið vann níu marka sigur á FH í grannaslag í Kaplakrika.

Þegar þessi lið mættust á Ásvöllum í upphafi tímabils voru það FH-ingar sem fögnuðu eftir níu marka sigur.

„Þeir fögnuðu eins og þeir væru heimsmeistarar eftir fyrri leikinn og það kom ekki til greina að láta þá vinna aftur. Þegar við spilum þessa vörn þá eiga lið í erfiðleikum með okkur," sagði Freyr.

„Við vinnum þetta í vörn og markvörslu. Birkir Ívar var frábær, varði dauðafæri eftir dauðafæri auk þess að taka skylduboltana. Þetta er ljúft en ég hefði þó viljað sjá fleiri Haukamenn á pöllunum, kannski eru bara einhverjir sem vilja alls ekki koma hingað."

FH setti stefnuna á að slá aðsóknarmetið í Kaplakrika sem er 2.800 manns. Það tókst ekki en milli 2.600 og 2.700 manns mættu á leikinn í kvöld.

„Ég hefði viljað sjá þetta met slegið. Það er ómögulegt að metið sé í leik FH og ÍBV. Þetta met á náttúrulega að vera á leik milli FH og Hauka," sagði Freyr.

„Næst á dagskrá hjá okkur er bikarleikur gegn Fram á mánudaginn. Þetta er rosaleg törn sem við erum að fara í gegnum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×