Innlent

165 milljónir í ný dómsmálagjöld

Mynd/GVA

Stefnur fyrir héraðsdómstólum og áfrýjanir til Hæstaréttar í málum er varða fjárhagslega hagsmuni verða dýrari en nú er, verði frumvarp fjármála­ráðherra þar um að lögum.

Gerir það ráð fyrir tveimur nýjum gjaldaþrepum dómsmálagjalda í samræmi við stefnu- eða áfrýjunarfjárhæð.

Samkvæmt mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins munu dómsmálagjöld hækka úr samtals fimmtán milljónum á ári í 180 milljónir. Þessar auknu tekjur eiga að mæta kostnaði við fjölgun dómara við Hæstarétt og héraðsdómstólana.

Eins og nú háttar kostar stefna fyrir héraðsdómi þar sem stefnufjárhæð er yfir 30 milljónum króna 90 þúsund krónur. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stefna geti kostað allt að 250 þúsund krónur.

Að sama skapi kostar áfrýjun til Hæstaréttar þar sem 30 milljónir eða meira eru í húfi 130 þúsund krónur. Samkvæmt frumvarpinu getur sú fjárhæð farið upp í allt að 300 þúsund krónur. - bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×