Innlent

Níu ára gamall ökumaður stöðvaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Drengurinn var búinn að aka í gegnum Héðinsfjarðargöng þegar hann var tekinn. Mynd/ anton.
Drengurinn var búinn að aka í gegnum Héðinsfjarðargöng þegar hann var tekinn. Mynd/ anton.

Níu ára gamall ökumaður var stöðvaður í morgun eftir að hann hafði ekið í gegnum Héðinsfjarðargöngin. Drengurinn var þó ekki einn í för því afi hans, karlmaður á níræðisaldri hafði leyft honum að aka og var með honum í bílnum.

Í dagbók lögreglunnar á Ólafsfirði segir lögreglumaður að hann hafi ekið frammá bifreiðina og hafi aksturslag hennar verið frekar einkennilegt. Allt í einu hafi ökumaður numið staðar og hafi lögreglumaður verið nálægt því að aka aftan á hana. Hafi hann þá séð hvar lítil mannvera skaust úr ökumannssæti og hent sér í aftursætið.

Þegar lögreglumaðurinn athugaði hvað væri í gangi kom í ljós að 85 ára gamall maður hafði leyft dóttursyni sínum, 9 ára gömlum, að aka bifreiðinni úr Héðinsfirði, í gegnum Héðinsfjarðargöng vestari og áleiðis til Siglufjarðar. Hann stöðvaði bifreiðina við Hól í Siglufirði.

Lögreglumaðurinn hafði samband við föður drengsins og lét hann vita af afskiptum sínum af drengnum og afanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×