„Við ætlum að fá hann til að koma – við erum að spá í næstu fiskidaga. Þá eru flestir hérna. Ég trúi ekki öðru en að margir hafi áhuga á að hlusta á hann,“ segir Björn Snorrason, framkvæmdastjóri Dalpay og varamaður í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá hefur nafni Dalvíkur verið dreift í 60 milljónir farsíma um allan heim. Þó ekki með snjöllu markaðsbragði, heldur sem nafn á svokallaðri Java-sýndarvél sem er innbyggð í Android-farsímastýrikerfinu frá Google. Hugbúnaðarverkfræðingurinn Dan Bornstein skrifaði Dalvik Java-sýndarvélina, en hann hefur mikinn áhuga á bænum og hefur komið þangað einu sinni. Björn hefur áhuga á að fá hann aftur til Dalvíkur til að halda fyrirlestur.
„Hann hefur verið með fyrirlestra um Android og við ætluðum að fá hann til að vera með strípaða útgáfu á mannamáli,“ segir Björn, sem á einnig sæti í atvinnumálanefnd sveitarfélagsins.
Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hefur Bornstein mikinn áhuga á að heimsækja Dalvík á ný. Hann er einnig liðtækur plötusnúður þannig að Björn veltir fyrir sér hvort hann slái upp balli í leiðinni. Fyrsta skrefið væri þó að fá hann til bæjarins á ný.
„Ég hætti ekki fyrr en hann kemur,“ segir Björn að lokum. - afb