Viðskipti erlent

Danskir Facebooknotendur dreifa mikið af vírusum

Danskir Facebooknotendur dreifa slæmum tölvuvírusum einna mest allra í heiminum. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á vegum vírusvarnafyrirtækisins McAfee.

Í frétt um málið á börsen.dk er haft eftir Michael Göttsche forstjóra McAfee Danmark að það geti litið út eins og þverstæða að lítið land eins og Danmörk eyðileggi tölvur um heim allan með vírusum. „Ástæðan er í fyrsta lagi að Danir eru með virkustu notendum Facebook í heiminum," segir Göttsche. „Og í öðru lagi trúum við vinum okkar og kunningjum í blindni þegar þeir setja eitthvað inn á síðurnar okkar."

Hinn illvígi Koobface ormur er tekinn sem dæmi en hann hefur herjað mikið á Twitter, MySpace og Facebook. Bandaríkjamenn standa fyrir nær helmingi af útbreiðslu Koobface í heiminum eða 49%. Þjóðverjar koma þar næst á eftir með 9% og Danir eru í þriðja sæti með 7%.

Þótt margir Danir noti Facebook eru þeir þó langtum færri en t.d. Bretar þar sem útbreiðsla á tölvuvírusum er mun minni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×