Íslenski boltinn

Heimir Guðjónsson: Frábær liðsheild hjá FH-liðinu í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var kátur í leikslok eftir 4-0 stórsigur á KR í bikaúrslitaleiknum á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill hans sem þjálfari og hefur Heimir nú unnið stóran titil á fyrstu þremur tímabilum sínum sem þjálfari í meistaraflokki.

„Við vorum ekkert að spila okkar besta leik í fyrri hálfleik en vorum reyndar alltaf hættulegir. Þeir voru það reyndar líka enda með gott lið. Við komust yfir og seinni hálfleikur var frábærlega spilaður af hálfu FH. Ég er virkilega stoltur af strákunum því þeir stóðu sig frábærlega í þessum leik," sagði Heimir.

KR-ingar voru mjög ósáttur út í vítaspyrnudómanna sem skiluðu FH 2-0 forustu í hálfleik.

„Ég sá ekki þessi víti. Það er þannig að þegar maður spilar á Laugardalsvellinum þá er maður svo langt frá vellinum að ég sá þetta ekki. Elli var einvherjum fjórum til fimm metrum frá þessu þannig að hann hlýtur að hafa séð þetta. Hann var öruggur á þessu enda dæmdi hann leikinn mjög vel," sagði Heimir.

„Mörk skipta sköpum í leikjum og við skoruðu fyrstu tvö mörkin. Við héldum svo áfram í seinni hálfleik og spiluðum frábærlega. Við náðum nokkurn veginn að loka á sóknarleikinn hjá þeim í seinni hálfleik og fórum í margar hraðar sóknir þar sem við nýttum vængina vel," sagði Heimir.

„Við unnum bikarinn síðast 2007 þannig að það var kominn tími á að vinna hann. Það var frábær liðsheild hjá FH-liðinu í þessum leik. Menn stóðu saman, voru að gera þetta sem lið og það skilar alltaf árangri," sagði Heimir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×