Innlent

Hægt að skapa fleiri störf á Suðurnesjum

Dofri Hermannsson.
Dofri Hermannsson.
Hægt væri að skapa mun fleiri störf á Suðurnesjum með því að falla frá hugmyndum um álver í Helguvík og nota orkuna til að reisa kísilmálm og efnaverksmiðjur. Þetta kom fram á málfundi Græna netsins í dag. Fjórir aðilar hafa sýnt áhuga á að reisa slíkar verksmiðjur á Suðurnesjum.

Græna netið er félag jafnaðarmanna um umhverfi og náttúru en félagið stóð fyrir málfundi á Sólon í dag um álversframkvæmdir við Helguvík.

„Við eigum að hætta að leggja ofuráherslu á Helguvík af því að í fyrsta lagi hún er strand, í öðru lagi af því að hún skapar mjög fá störf á hvert megawatt og í þriðja lagi af því að það bíða fjórir aðilar eftir því að fá aðgang að þessari orku sem geta skapað miklu fleiri störf," sagði Dofri Hermannsson, formaður Græna netsins.

Dofri: Hættum að einblína á álið

Þessir aðilar vilja reisa meðal annar kísilmálmverksmiðjur og efnaverksmiðjur. Dofri telur að með því að virkja 300 megawött og selja þessum aðilum væri hægt að skapa 1100 störf. Verði svipuð orka seld álveri í Helguvík myndu einungis skapast um 350 störf.

„Með því að hafa fleiri aðila í þessu þá erum við að dreifa áhættunni af orkusölunni. við erum að búa til virðiskeðju sem er eitt af því serm Michael Porter sagði um daginn að við yrðum að gera. Hætta að einblína á álið og búa til virðiskeðju sem eykur virðisaukann í landinu og við getum þá sett starfsemi niður í Þorlákshöfn, í Grindavík, í Helguvík og víðar," sagði Dofri.



Tryggvi: Óskynsamlegt að hætta við framkvæmdir


Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, telur óskynsamlegt að falla frá framkvæmdum við Helguvík.

„Það er hægt að finna starfssemi sem skapar mun fleiri störf. Það myndi t.d. skapa mun fleiri störf að nota alla þessa peninga til að láta alla grafa skurð. Það yrðu mun fleiri störf. En við verðum að hugsa þetta út frá hagkvæmni. Við getum ekki virkjað og byggt okkar iðnaðarframleiðslu til þess að hámarka fjölda starfa. Það verður að vera hagkvæmni þannig að þetta verði verðmæt störf," sagði Tryggvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×