Innlent

Stálu yfir 20 þúsund sígarettum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ránið átti sér stað á Hvolsvelli. Mynd/ Vilhelm
Ránið átti sér stað á Hvolsvelli. Mynd/ Vilhelm
Sígarettum að verðmæti á aðra milljón króna var stolið úr söluskálanum Björkinni á Hvolsvelli í nótt. Þjófarnir brutu rúðu og komust þannig inn, að því er fram kemur á vefnum Sunnlenska. Þar kemur líka fram að þjófarnir virðast hafa gengið hreint til verks og stolið ákveðnum sígarettutegundum en látið aðrar vera.

Sunnlenska hefur eftir Guðfinni Guðmannssyni, veitingamanni í Björkinni, að verðmæti þýfisins sé á aðra milljón króna. Það staðfestir lögreglan á Hvolsvellli í samtali við Vísi. Lögreglan segir í samtali við Vísi að ekki sé búið að hafa hendur í hári þjófanna, en málið sé í rannsókn.

Miðað við að sígarettupakki kosti um þúsund krónur, má gera ráð fyrir því að þjófarnir hafi haft að minnsta kosti tuttugu þúsund sígarettur á brott með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×