Fótbolti

Segir Edinson Cavani vera betri en Fernando Torres

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edinson Cavani fagnar einu marka sinna á tímabilinu.
Edinson Cavani fagnar einu marka sinna á tímabilinu. Mynd/AP
Paolo Rossi, hetja Ítala á HM 1982, hefur mikla trú á 23 ára framherja Napoli-liðsins, Edinson Cavani, en Úrúgvæmaðurinn verður í sviðsljósinu þegar Napoli tekur á móti Liverpool í Evrópudeildinni annað kvöld. Rossi segir að eins og staðan sé í dag þá sé Edinson Cavani betri en Fernando Torres hjá Liverpool.

Fernando Torres hefur aðeins skorað 1 mark í fyrstu 10 leikjum sínum með Liverpool á tímabilinu en spænski framherjinn fór ekki með enska liðinu til Ítalíu. Edinson Cavani kom til Napoli frá Palermo fyrir þetta tímabilið en hann hefur skorað 6 mörk í 7 leikjum í ítölsku a-deildinni og alls 9 mörk í 11 leikjum í öllum keppnum.

„Í dag er Cavani betri en Torres því þeir eru í mismunandi aðstöðu, bæði andlega og líkamlega," sagði Paolo Rossi við Sky Sport Italia.

„Torres hefur þegar sýnt sig og sannað á stóra sviðinu en hann lék ekki eins og hann á best í úrslitakeppni HM. Cavani er hinsvegar á mikill uppleið og hann getur orðið stórstjarna," sagði Rossi.

„Styrkur beggja leikmannanna liggur í því að þeir hafa gott markanef og eru stórhættulegir í vítateignum," sagði Rossi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×