Innlent

Indverskur krikketmógúll vill sækja um hæli á Íslandi

Lalit Modi fyrrum formaður indversku úrvalsdeildarinnar í krikket hyggst sækja um hæli á Íslandi. Hann er eftirlýstur á Indlandi fyrir að hafa misnotað sjóði indverska Krikketsambandsins.

Þetta kemur fram á vefsíðunni India Today. Þar segir að Modi hyggist nota góð tengsl eiginkonu sinnar, Minal, við Dorrit Moussaieff forsetafrú til að fá vegabréf á Íslandi. Minal og Dorrit eru góðar vinkonur til margra ára.

Krikket er þjóðaríþrótt á Indlandi og hefur Modi verið kallaður krikketkonungur landsins.

Eftir að ákæran á hendur Modi birtist var hann rekinn úr stöðu sinni sem formaður krikketdeildarinnar. Hann hefur síðan hoppað á milli borga í Evrópu og dvalið í London, París, Mílan og Mónakó en hann dvelur þó aðallega í London þar sem hann hefur leigt sér hús.

Fram kemur í frétt India Today að indversk yfirvöld hyggjast lýsa eftir Modi sem glæpamanni á alþjóðavettvangi ef hann gefur sig ekki fram í Mumbai bráðlega af fúsum og frjálsum vilja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×