Handbolti

Brand: Íslendingar refsuðu okkur fyrir mistökin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja.
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja. Mynd/AFP
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja, segist ekki hafa miklar áhyggjur af sínum mönnum þrátt fyrir að að þeir hafi tapað tvisvar fyrir Íslandi í æfingaleikjum um helgina.

Liðin mættust í Nürnberg á laugardaginn og svo í Regensburg í gær. Í bæði skiptin vann Ísland fjögurra marka sigur.

„Ég get bara endurtekið það sem ég sagði í gær. Íslendingar áttu skilið að vinna af því að þeir voru mun klókari og refsuðu okkur grimmt fyrir mistökin sem við gerðum í leiknum," sagði Brand eftir síðari leikinn í gær.

„Liðið er þó á uppleið. Það er algjör óþarfi að örvænta og það vita allir sem komið hafa að undirbúningi fyrir stórmót í handbolta. Ég vona að við lærum sem allra mest og sem fyrst af mistökum okkar og að leikirnir hafi því verið okkur góð reynsla," sagði Brand en þýska liðið, rétt eins og það íslenska, undirbýr sig nú fyrir EM í Austurríki sem hefst í næstu viku.

Þeir Holger Glandorf og Uwe Gensheimer misstu af leiknum í gær vegna meiðsla en markvörðurinn Johannes Bitter lék sinn fyrsta leik síðan hann gekkst undir litla aðgerð á olnboga fyrir tæpum tveimur vikum síðan.

„Ég var ánægðari með sóknarleikinn í dag heldur en í gær - það var betra skipulag á honum. Á hinn bóginn var vörnin ekki jafn góð og þurfum að vinna betur í henni næstu dagana, sérstaklega í fótavinnunni," bætti Brand við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×