Skoðun

Svandís Svavarsdóttir: Reykjavík þarf Sóleyju, Þorleif og Líf

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Ef meirihluti framsóknar og íhalds hefði komist upp með það sem til stóð í REI-málinu væri hluti Orkuveitu Reykjavíkur til skiptanna í þrotabúsmálum Glitnis og Íslandsbanka núna. Það tókst að stoppa það. Það tókst að stoppa það vegna þess að Vinstrihreyfingin - grænt framboð átti fulltrúa í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem gat fylgt sínum sjónarmiðum eftir í borgarstjórn Reykjavíkur.

Kosningar snúast um að kalla fólk til verka sem kann að forgangsraða í þágu almennings. Um leið eru kosningar tækifæri almennings til að hafa áhrif til fjögurra ára. Hrunflokkarnir þurfa hvíld - líka í borginni.

Flokkurinn sem þorir að verja velferðarkefið fyrir Sjálfstæðisflokknum er Vinstri hreyfingin grænt framboð. Það er flokkurinn sem þorir að standa uppréttur andspænis peningaöflunum í landinu og hefur alltaf boðið þeim birginn þegar þarf. Með því að láta þá borga sem eiga og geta. Með því að gleyma aldrei félagslegu réttlæti og jöfnuði. Með því að gefa ekki afslátt í umhverfismálum.

Því sterkari sem Vinstri græn eru- því meiri líkur eru á því að Ísland komist út úr kreppunni sem íhaldið og framsókn komu okkur í.

Reykjavík þarf Sóleyju, Þorleif og Líf.

Höfundur er umhverfisráðherra og fyrrverandi borgarfulltrúi og stjórnarmaður Orkuveitunnar.










Skoðun

Sjá meira


×