Innlent

Fátt nýtt til ríkissaksóknara

rannsóknarskýrslan Endurskoðendur bankanna, peninga­markaðssjóðir þeirra, afskipti stjórnarmanna af einstökum viðskiptum, kaupréttarsamningar starfsmanna og umfangsmikil markaðsmisnotkun er meðal þess sem rannsóknarnefnd Alþingis telur að saksóknari eigi að taka til sérstakrar rannsóknar.

Sérstakur kafli er í skýrslunni um málin. Skjalið var fært Birni L. Bergssyni, settum ríkissaksóknara, á sunnudag og mun hann nú leggjast yfir upplýsingarnar og ákveða hvort málunum verði eftir atvikum vísað áfram til sérstaks saksóknara til sakamálarannsóknar.

Ekki er um tölusettan lista yfir einstök mál að ræða, heldur fyrst og fremst málaflokka sem nefndin telur ástæðu til að rannsaka sérstaklega með tilliti til þess hvort þar voru framin refsiverð afbrot. Nokkur einstök mál eru þó nefnd til sögunnar. Sjá má listann hér til hliðar.

Björn segir í samtali við Fréttablaðið að töluverð vinna sé nú fram undan við að greina upplýsingarnar í skýrslunni og vísa síðan málum áfram til Ólafs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Ekki sé þó mjög margt splunkunýtt í kaflanum. Ólafur tekur í sama streng.

„Velflest höfum við séð áður eða erum byrjuð að vinna í," segir hann. „En það er eitt og annað nýtt," bætir hann þó við.

stigur@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×