Innlent

17 vændiskaupamál til saksóknara

Í gæsluvarðhaldi Catalina situr í gæsluvarðhaldi.
Í gæsluvarðhaldi Catalina situr í gæsluvarðhaldi.

Mál sautján meintra kaupenda vændis á vegum Catalinu Mikue Ncogo hafa verið send til ríkissaksóknara. Þar verður tekin ákvörðun um hvort einhverjir þeirra eða allir verða ákærðir.

Kaup á vændi eru brot á ákvæði almennra hegningarlaga. Í ákvæðinu segir að hver sem greiði eða heiti greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins greiddu kaupendur um tuttugu þúsund krónur fyrir þjónustuna í hvert skipti. Enginn þeirra mun hafa keypt vændisþjónustuna ítrekað.

Catalina situr í gæsluvarðhaldi til 23. apríl. Vitnisburðir kvenna vegna rannsóknar lögreglu á starfsemi hennar benda til þess að hún hafi gerst sek um mansal gagnvart sumum þeirra. Hún hafi beitt ofbeldi, hótunum um ofbeldi og frelsissviptingu gegn konunum.

Við rannsókn málsins hafa konur borið að þær hafi stundað vændi hér á landi á vegum Catalinu og að þær hafi komið til landsins í því skyni að starfa við vændi á vegum hennar. Þá hefur hún reynt að fá samfanga sinn, unga konu, til að starfa fyrir sig í vændi fyrir 500.000 krónur á mánuði þegar hún væri laus úr fangelsi.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×