Liverpool á erfitt verkefni fyrir höndum í Evrópudeildinni á morgun er liðið fer til Tyrklands og ver 1-0 forskot sitt út fyrri leiknum.
Það þarf liðið að gera án stjarnanna sinna - Fernando Torres og Steven Gerrard - en þeir eru báðir frá vegna meiðsla.
Gerrard er slæmur í bakinu og Torres þarf að hvíla enda að jafna sig eftir meiðsli. Fastlega er þó búist við þeim í leiknum gegn WBA um helgina.
Daniel Agger og Maxi Rodriguez eru einnig fjarri góðu gamni sem og vandræðapésinn Javier Mascherano.