Viðskipti innlent

Bankastjóri tjáir sig ekki um uppsagnir

Breytingar í bankanum Steinþór Pálsson (lengst til hægri) innsiglar söluna á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðs Íslands. Með honum á myndinni eru Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri og Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðsins. Fréttablaðið/GVA
Breytingar í bankanum Steinþór Pálsson (lengst til hægri) innsiglar söluna á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðs Íslands. Með honum á myndinni eru Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri og Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðsins. Fréttablaðið/GVA

Stjórnendur Landsbankans eru að ljúka við stefnumótun og verða niðurstöður hennar kynntar í lok mánaðar. Endanleg útfærsla verður kynnt í október. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, vill ekki fara ítarlega út í vinnuna, sem staðið hefur yfir frá því hann tók við starfinu í byrjun júní.

„Ég hef átt fund með öllu starfsfólki bankans. Það hefur verið beðið um að leggja lið og segja sína meiningu. Þetta hafa verið mjög góðir fundir. Út úr stefnumótuninni koma ákveðnar áherslur. Þær eru orðnar það ljósar að við teljum rétt að koma fram með breytingar á skipulaginu,“ segir hann. Útfærslan nær niður á einstaka deildir bankans.

Heimildir Fréttablaðsins herma að fækkað verði í starfsliði bankans. Það vill Steinþór ekki staðfesta. „Ég get ekki farið nánar út í það. En það verða einhverjar breytingar. Ef það væru engar breytingar væri eitthvað skrýtið að gerast,“ segir hann og bætir við að ekki eigi að lesa of mikið í þróun mála.

Í umsögn bankaráðs Landsbankans um ráðningu Steinþórs frá í maí kemur fram að hann hafi mikla reynslu af breytingastjórnun og stefnumótun og hafi kraft og þor til að leiða bankann þangað sem hann eigi heima.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×