Innlent

Hryðjuverkaógn tefur póstsendingar til Bandaríkjanna

Allir pakkar yfir 500 grömmum verða gegnumlýstir.
Allir pakkar yfir 500 grömmum verða gegnumlýstir.

Bandarísk stjórnvöld hafa hert öryggiskröfur vegna pósts sem sendur er til Bandaríkjanna. Í tilkynningu frá Póstinum segir að ástæðan fyrir þessu sé bréfasprengja sem send var frá Jemen fyrr á árinu. „Þessar auknu kröfur leiða til tafa á bréfum og pökkum þyngri en 500 gr. sem koma frá Evrópu, þar á meðal Íslandi, til Bandaríkjanna."

Þá segir að Íslandspóstur vinni nú að því í samstarfi við Icelandair að finna lausn svo að hægt sé að uppfylla þau skilyrði sem fylgja þessari breytingu, sem felst í aukinni gegnumlýsingu á sendingum. „Auk þess er unnið með öðrum Evrópuþjóðum að því að finna varanlega lausn vegna málsins. Því miður má búast við allnokkrum töfum á sendingunum þar til lausn er fundin. Ekki er unnt að segja til um á þessari stundu hversu miklar tafirnar verða. Þetta hefur hinsvegar engin áhrif á flutningstíma bréfa og pakka léttari en 500 gr. til Bandaríkjanna."

Íslandspóstur segist harma að þessi breyting komi til með að tefja þær sendingar sem þegar hafa verið póstlagðar og póstlagðar verða í nánustu framtíð. „Það er þó heppilegt að frestur til að senda jólakort og pakka til Bandaríkjanna er liðinn og því ætti þessi breyting ekki að hafa mikil áhrif á jólasendingar frá Íslandi til vina og ættingja í Bandaríkjunum."

Að endingu er tekið fram að þessar hertu öryggiskröfur hafa ekki áhrif á sendingar frá Bandaríkjunum heldur einungis til Bandaríkjanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×