Innlent

Öðlingurinn afhendir 300 þúsund krónur

Bryndís Bjarnarson tekur við 300.000 krónum úr hendi Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur við hátíðlega athöfn á Hallveigarstöðum.
Bryndís Bjarnarson tekur við 300.000 krónum úr hendi Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur við hátíðlega athöfn á Hallveigarstöðum.
Þórdís Elva Þorvalds­dóttir afhenti í vikunni sem leið Skottunum, samstarfsvettvangi kvennahreyfinga í landinu, 300 þúsund króna peningagjöf.

Peningarnir eru afrakstur átaksins Öðlingurinn 2010 sem Þórdís Elva stofnaði til. Hugmyndin að baki átakinu er ákvörðun Þórdísar Elvu um að láta ágóða af sölu bókar hennar, Á mannamáli, renna beint til baráttunnar gegn kynferðisofbeldi.

Fyrirætlun Skottanna er að koma á fót alhliða þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, vændis og mansals. „Á mannamáli er skrifuð af þörf fyrir að ráðast á eitt hljóðlátasta mein samtímans, kynferðisofbeldi, og því þótti mér rakið að nota bókina sem fjáröflunartæki í þágu baráttunnar,“ segir Þórdís Elva. Ljóst sé að þrátt fyrir að almennt sé fólk sammála um alvarleika málaflokksins séu peningar sem til hans fari ævinlega af skornum skammti.

Öðlingsátakið stendur enn og þeir sem kaupa bókina Á mannamáli í gegnum vefinn odlingurinn.is fá bókina senda heim og leggja um leið góðu málefni lið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×