Innlent

Bæjarstjóri gáttaður á bréfi forstjóra Magma

Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.

„Ég er gáttur á þessu bréfi og það setur málið í allt aðra stöðu," segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, um bréf forstjóra Magma til iðnaðarráðherra. Hann segir að sett hafi verið upp leikrit í kringum sölu Íslandsbanka á hlut Geysis Green Energy í HS Orku til Magma í stað lífeyrissjóðanna eða Norðuráls. Hann telur að samkomulag hafi verið gert um að selja raforku HS Orku til annarra fyrirtækja en álvers Norðuráls í Helguvík.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Ross Beaty, hinn kanadíski eigandi Magma Energy, móðurfélags HS Orku, gefi í skyn í bréfi sem hann skrifaði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra nýlega, að hann hafi lítinn áhuga á að HS Orka selji orku til álversins í Helguvík. Hann kjósi frekar að sú græna orka sem HS Orka framleiðir verði seld öðrum kaupendum en álveri.

Rætt var við Ásmund í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann viðhorf Beaty í bréfinu ekki vera í samræmi við það sem fram hafi komið á fundi hans með forystumönnum sveitarfélagsins í vor.

Hringurinn að lokast

Þá sagðist Ásmundur hafa heimildir fyrir því að lífeyrissjóðirnir eða Norðurál hafi gert tilboð á sama tíma og Magma í hlut Geysis Green Energy í HS Orku. Birna Einardóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi þrátt fyrir það ákveðið að selja umræddan hlut til Magma.

Ásmundur sagðist telja að sett hafi verið upp leikrit í kringum söluna og það væri allt að koma í ljós núna. Samkomulag hafi verið gert sem fæli í sér að raforka HS Orku færi í græn verkefni en ekki til álversins í Helguvík. „Mér finnst þessi hringur vera að lokast á einkennilegan hátt."

Ásmundur sagði bréf Beaty og framvindu málsins valda sér miklum vonbrigðum. Lljóst væri að Magma og stjórnvöld hafi komið fram að óheilindum í málinu.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.


Tengdar fréttir

Vill síður selja orku til álvera

Ross Beaty, hinn kanadíski eigandi Magma Energy, móðurfélags HS Orku, gefur í skyn í bréfi sem hann skrifaði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra nýlega, að hann hafi lítinn áhuga á að HS Orka selji orku til álvers Norðuráls í Helguvík. Hann kjósi frekar að sú „græna orka" sem HS Orka framleiðir úr jarðvarma á Reykjanesi og Svartsengi verði seld öðrum kaupendum en álveri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×